Komdu með út í geim!
 

Latóhagkerfið komið í gang
01.07.2004

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Friðrik Halldórsson, framkvæmdastjóri hjá KB banka, opnuðu Latóhagkerfið formlega í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag, að viðstöddum 40 börnum frá leikskólanum Ásum í Garðabæ.  Þær Halla hrekkjusvín og Solla stirða úr Latabæ mættu á staðinn og fræddu börnin um heilbrigt líferni, þar sem holl fæða og hreyfing er lykilatriðið. Valgerður Sverrisdóttir og Friðrik S. Halldórsson afhentu síðan börnunum latóseðla, sem þau geta notað til að kaupa holla fæðu eins og vatn, Cheerios og grænmeti svo eitthvað sé nefnt. 

Einnig var heimsfrumsýning á þremur tónlistarmyndböndum frá Latabæ, sem vakti mikla lukku meðal barnanna. Þar fengu börnin að skyggnast inn í nýjan og endurbættan Latabæ, en verið er að gera þætti fyrir Bandaríkjamarkað um þennan líka litríka bæ með persónum sem íslensk börn kannast vel við. Latóhagkerfið verður starfrækt í tvo mánuði, og á þeim tíma geta öll börn 11 ára og yngri keypt hollustuvarning í verslunum Hagkaupa á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í völdum verslunum á landsbyggðinni með Latóseðlum.

Við óskum öllum félögum í Latóhagkerfinu góðs gengis!

Hér að neðan eru myndir frá opnun Latóhagkerfsisins.