Komdu með út í geim!
 



Heilræði Íþróttaálfsins

Halló krakkar!

Ég veit að þið eruð alltaf dugleg að æfa ykkur reglulega, alveg eins og ég. Til að hugsa vel um líkamann verðum við að hreyfa okkur minnst þrisvar sinnum í viku, í að minnsta kosti tuttugu til þrjátíu mínútur í senn. Það getur komið sér vel að hafa gott úthald. Við byggjum upp þol t.d. með því að hlaupa, synda, spila fótbolta eða ganga hratt. Einnig er nauðsynlegt að auka styrk sinn til dæmis með því að klifra en það verð ég alltaf að gera þegar ég fer upp í loftbelginn minn. Í æfingum er best að endurtaka æfinguna og muna að æfingin skapar meistarann. Mér finnst einnig gaman að hoppa hátt og fara í splitt en til að geta það verð ég að teygja á vöðvunum og gera nokkrar teygjuæfingar á hverjum degi.

Við erum svo heppin á Íslandi að geta andað að okkur hreinu lofti og leikið okkur úti sem er bæði gaman og gagnlegt. Það er ekki nauðsynlegt að vera í keppnisliði eða vera alltaf fyrstur: nóg er að hafa gaman af því að hreyfa sig.

Ég veit að þið gerið ekki sömu mistökin og hann Goggi mega, sem hangir inni í tölvunni allan daginn. Ef þið hafið ekki ennþá fundið hreyfingu sem hentar ykkur, talið þá við mömmu eða pabba og biðjið þau um að hjálpa ykkur.

Íþróttakveðja,
Íþróttaálfurinn.